Það reyndist afar mikilvægt fyrir íslenska ríkið að nýta fullveldisrétt sinn þegar kröfuhafar föllnu bankanna sóttu á yfirvöld. Þetta segir Sigurður Már Jónsson í viðtali á vettvangi Bókaklúbbs Spursmála.
Í liðnum mánuði var bókin Afnám haftanna - samningar aldarinnar? eftir Sigurð Má tekin fyrir á vettvangi klúbbsins. Tilefnið var það að nýlega voru 10 ár liðin frá því að risavaxnir samningar náðust við slitabú föllnu viðskiptabankanna sem leiddu til afnáms fjármagnshafta hér á landi. Samningarnir urðu einnig til þess að lækka skuldir ríkissjóðs um hundruð milljarða króna.
Húsfyllir var á Vinnustofu Kjarvals á dögunum þegar ríflega 150 klúbbmeðlimir mættu til leiks á þriðja viðburð Bókaklúbbs Spursmála.
Þar settist Kári Stefánsson, stofnandi Íslenskrar erfðagreiningar, niður með Stefáni Einari Stefánssyni, ásamt klúbbmeðlimum, og ræddi efni bókarinnar 1984 eftir George Orwell á hispurslausan og líflegan hátt eins og hans er von og vísa.
Viðraði Kári til að mynda hugmyndir um hvar hægt sé að sjá birtingarmyndir af Stóra bróður í heiminum í dag. Er hann sannfærður um að víða glitti í það fyrirbæri með beinum eða óbeinum hætti.
Bókin var bók mánaðarins í Bókaklúbbi Spursmála í júnímánuði.
Sjálfur las Kári bókina fyrst fyrir nærri hálfri öld síðan en efni hennar hafði áhrif á Kára, eins og fleiri, enda um eina áhrifamestu bók 20. aldar bókmennta að ræða. Hefur hún frá fyrstu útgáfu haft mótandi áhrif á hugmyndir manna um samspil ríkisvalds og einstaklingsfrelsis sem vel er hægt að heimfæra á samtímann sem við lifum nú.
Að mati Kára er byggir saga Orwells á ýkjum. Raunar þykir honum sagan að mörgu leyti fráleit því hún gengur eins langt og hugsast getur í því að lýsa samfélagi sem er í heljargreipum alræðis og svipt sjálfstæðri hugsun og frelsinu um leið. Sem í margra eyrum kann reyndar að hljóma kunnulega.
Það bar þó margt á góma í samtali þeirra Kára og Stefáns Einars. Má þar helst nefna upplifun hans og reynslu af alræðissamfélögum dagsins í dag, kórónuveirufaraldurinn, stjórnarfarið í Kína, ríkisvaldið hér á landi og lýsingar hans af samskiptum sem hann átti við þáverandi heilbrigðisráðherra, Svandísi Svavarsdóttur. Sagði hann að þar hafi stálin stinn mæst en einhverjir myndu kannski frekar segja að þar hafi skrattinn hitt ömmu sína - dæmi nú hver fyrir sig.
Á annað þúsund manns hafa skráð sig í klúbbinn á þeim fjórum mánuðum sem hann hefur verið starfandi og fjölgar þar enn. Nú í júlímánuði sitja klúbbfélagar við og lesa bók Sigurðar Más Jónssonar, Afnám haftanna: samningar aldarinnar? sem er bók þessa mánaðar á vettvangi klúbbsins. Af því tilefni fæst hún á sérstöku tilboði í verslunum Pennans Eymundsson.
Hægt er að skrá sig í klúbbinn með því að smella hér.
Samstarfsaðilar Bókaklúbbs Spursmála eru Samsung, Kerecis, Brim og Penninn.
Forseti Alþingis hefur beitt kjarnorkuákvæði þingskaparlaga gegn minnihlutanum á þingi. Starfsemi þess er í uppnámi í kjölfarið. Aukaþáttur af Spursmálum fer í að greina hina alvarlegu stöðu.
Átök milli meirihluta og minnihluta á þingi tóku nýja og óvænta stefnu í kjölfar þess að Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins og einn af varaforsetum Alþingis, frestaði þingfundi á tólfta tímanum síðastliðið miðvikudagskvöld.
Í kjölfarið flutti Kristrún Frostadóttir, forsætisráðherra, fordæmalaust ávarp þar sem hún lýsti því yfir að meirihluti þingheims hefði tekist á hendur það hlutverk að verja íslenska lýðveldið gegn minnihlutanum.
Hildur Sverrisdóttir mætir í Spursmál og ræðir aðdragandann að þessari atburðarás og eftirleik hennar.
Reynsluboltar kallaðir á vettvang
Að loknu samtali við Hildi mæta þeir Guðmundur Árni Stefánsson, varaformaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi ráðherra og Einar K. Guðfinnsson fyrrverandi ráðherra og forseti Alþingis.
Þeir hafa marga fjöruna sopið í hinni íslensku pólitík og þekkja söguna langt aftur.
Fróðlegt verður að heyra þeirra álit á þeim atburðum sem nú hafa orðið og virðast ætla að móta alla stjórnmálaumræðu í landinu á komandi misserum.
Kristrúnu Frostadóttur var boðið í þáttinn og gerð tilraun til þess að hafa samband við hana sjálfa og aðstoðarmann hennar. Það bar engan árangur.
Það er í meira lagi rafmagnað andrúmsloftið á Alþingi þessa sólarhringana. Ríkisstjórnin er ekki að koma sínum mikilvægustu málum í gegn og óvíst er hvenær þing getur farið í sumarfrí.
Í nýjasta þætti Spursmála, og jafnframt þeim síðasta fyrir sumarfrí, er rætt við þrjá þingmenn stjórnarandstöðunnar og ljósi varpað á það hvernig staðan gæti þróast næstu sólarhringana. En einnig hvernig þingveturinn, sem teygðist inn á mitt sumar, hefur þróast.
Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Sjálfstæðisflokksins, mætir á vettvang ásamt Bergþóri Ólasyni þingflokksformanni Miðflokksins og Ingibjörgu Isaksen, formanni þingflokks Framsóknarflokksins.
Spursmál verða aftur á dagskrá á mbl.is föstudaginn 15. ágúst klukkan 14.
Ólíklegt er að átökin milli Írans og Ísraels breiðist út í Mið-Austurlöndum. Fyrrnefnda ríkið virðist einangrað og án vina. Hins vegar er Bandaríkjaforseta vandi á höndum heima fyrir í ljósi þeirra yfirlýsinga sem hann hefur áður gefið um að hann vilji forðast að Bandaríkin dragist inn í átök í fjarlægum álfum.
Þetta er mat Alberts Jónssonar, fyrrverandi sendiherra Íslands í Bandaríkjunum. Hann er gestur Spursmála þennan föstudaginn og ræðir hin skæðu átök sem nú standa yfir milli Ísraels og Íran.
Í þættinum er einnig rætt við Sigurð Boga Sævarsson, blaðamann á Morgunblaðinu, sem fyrir þremur árum tók að ganga götur Reykjavíkur og skrá hjá sér umferð þá. Fyrr í júní lauk hann svo við að ganga þær allar. Í viðtalinu upplýsir Sigurður Bogi hversu margar göturnar eru og er ekki ólíklegt að einhverjum komi á óvart hversu margar götur prýða land Reykjavíkur.
Fréttir vikunnar eru svo ekki langt undan og á vettvang mæta þau Sigmar Vilhjálmsson, athafnamaður í Minigarðinum og víðar, og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins. Hún leggur senn í víking til Bandaríkjanna þar sem hún hyggst setjast á skólabekk. Þrátt fyrir það er pólitíkin ekki langt undan og umræðurnar fóru um víðan völl. Meðal annars að skemmtilegum stað í NY sem ber nafnið Swingers club.
Erlendir vogunarsjóðir beittu öllum ráðum til þess að hafa ríkisstjórn Íslands undir þegar reynt var að lyfta gjaldeyrishöftum. Þeir höfðu ekki erindi sem erfiði. En eftirleikurinn var svakalegur.Atburðirnir sem náðu hápunkti í júní 2015 og mörkuðu efnahagslega stöðu Íslands allar götur síðan eru mörgum í fersku minni, en þó hefur fennt yfir margt á þeim áratug sem liðinn er síðan.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, rifjar upp þessa atburði í Spursmálum í dag og upplýsir um atburði og atvik sem ekki hefur verið sagt frá áður.
Þá mætir Jökull Júlíusson, leiðtogi hljómsveitarinnar Kaleo. Hann ræðir ferilinn og stórtónleika sem eru á teikniborðinu í Vaglaskógi síðar í sumar.
Systurnar Kamilla og Júlía Margrét Einarsdætur fara yfir fréttir vikunnar á sinn einstaka hátt.
Borgaryfirvöld gera nú allt sem í þeirra valdi stendur til þess að eyðileggja starfsemi Aþenu í Breiðholti. Þetta segir Brynjar Karl Sigurðsson í samtali í Spursmálum. Í því felist kvenfyrirlitning. Í þætti dagsins er einnig rætt við Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóra. Nú munu margar vikur líða þar til gluggi opnast að nýju á að lækka stýrivexti. Þá mæta þeir einnig til leiks, Björn Ingi Hrafnsson, aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness og Starfsgreinasambandsins.
Þau Hulda Bjarnadóttir, forseti Golfsambands Íslands, og Sölvi Tryggvason, hlaðvarpsstjórnandi og fjölmiðlamaður, ræða fréttir vikunnar. Ber þar margt á góma, meðal annars salan á Íslandsbanka þar sem þúsundir Íslendinga keyptu fyrir litlar 20 milljónir hver eins og ekkert væri.
Þá mæta þau til leiks Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, og Margrét Ágústa Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands. Þau takast á um breytingar á búvörulögum og hvort rétt hafi verið að taka úr sambandi tiltekin ákvæði samkeppnislaga þegar afurðastöðvar í kjötiðnaði eru annars vegar.
Stór orð hafa verið höfð uppi um það mál á undanförnum mánuðum, ekki síst eftir að héraðsdómur felldi dóm um að breytingar á löggjöfinni hefðu gengið í berhögg við stjórnarskrá lýðveldisins. Hæstiréttur sneri þeim dómi fyrir nokkru og hafa ýmsir þurft að éta ofan í sig stóryrði sem byggðu á dómi hins lægra setta dómsvalds.
Í lok þáttarins er rætt við Guðmund Fertram Sigurjónsson, forstjóra og stofnanda Kerecis. Hann segir dimmt yfir atvinnumálum á Vestfjörðum í kjölfar þess að ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttir tilkynnti að hún hyggðist tvöfalda veiðigjöld á útgerðina í landinu.
En rætt er við Guðmund um fleiri spennandi mál, meðal annars hvort ske kynni að annað fyrirtæki á borð við Kerecis leynist meðal þeirra hundruða nýsköpunarfyrirtækja sem starfandi eru í landinu.
Kúbudeilan 1962 eftir Max Hastings hefur verið bók mánaðarins í maímánuði.
Hún kom fyrst út árið 2022 og setur magnaða atburði sem áttu sér stað fyrir rúmum sextíu árum í samhengi. Þá er merkilegt að sjá hversu margt sem er að gerast í nútímanum í samhengi við þá frásögn sem Hastings dregur fram.
Það var Magnús Þór Hafsteinsson sem þýddi verkið og hann settist niður með Stefáni Einari á dögunum til að ræða um bókina og atburðarásina fyrir rúmum sextíu árum þar sem litlu munaði að stórveldin tvö; Bandaríkin og Sovétríkin hefðu lent í afdrifaríkum átökum.
Bókaklúbbur Spursmála er í boði Samsung, Brim, Kerecis og Pennans.
Úlfar Lúðvíksson, fyrrverandi lögreglustjóri á Suðurnesjum, tekur enga fanga í ítarlegu viðtali í Spursmálum. Segir hann ríkislögreglustjóra og ráðuneytisstjóra dómsmálaráðuneytisins hafa brugðist skyldum sínum þegar kemur að vernd landamæra ríkisins.
Í þættinum fer Úlfar yfir það hvernig starfslok hans báru að og hvaða ástæður hann telur að búi að baki þeirri ákvörðun dómsmálaráðherra. Hann segir undanbragðalaust að honum hafi verið sýndur reisupassinn.
Í þættinum mæta stöllurnar Kristín Gunnarsdóttir og Ólöf Skaftadóttir en þær halda úti hinu geysivinsæla hlaðvarpi, Komið gott. Á miðvikudagskvöld stefndu þær 450 gestum í gamla Austurbæjarbíó og héldu þar uppi stuði langt fram eftir.
Þær ræða fréttir vikunnar sem eru margar og mismunandi. Allt frá nýrri mælingu á fylgi stjórnmálaflokkanna til hnífstunguárásar í Úlfarsárdal.
Í dag er slétt ár þar til Íslendingar ganga að kjörborðinu og kjósa til 62 sveitarstjórna. Víða stefnir í harðan slag og ljóst að margir þurfa að verja vígið og enn aðrir sem stefna á að ná völdum.
Þetta er meðal þess sem farið er yfir á vettvangi Spursmála þennan föstudaginn þegar blaðamennirnir Andrés Magnússon og Hermann Nökkvi Gunnarsson mæta til leiks og fara yfir kosningabaráttuna framundan. Það má segja að Spursmál ræsi kapphlaupið um meirihlutann í sveitarfélögunum landið um kring.
Halla Gunnarsdóttir, sem kjörin var formaður VR, stærsta stéttarfélags landsins í vor, mætir á vettvang og fer meðal annars yfir þær áhyggjur sem nú hrannast upp vegna hækkandi verðlags. Hún verður spurð að því hvort hætt sé við að risasamningarnir sem undirritaðir voru í fyrra, með miklum kostnaði fyrir ríkissjóð og fyrirtækin í landinu, sé í hættu en í september næstkomandi fer sérstök forsendunefnd yfir það hvort ákvæði samningsins haldi.
Frosti Logason mætir ásamt Höllu en hann birti í vikunni kynngimagnað viðtal við Jón Óttar Ólafsson, sem verið hefur milli tannanna á fólki síðustu vikur vegna njósnafyrirtækisins PPP. Frosti hefur sterkar skoðanir á störfum sérstaks saksóknara og það verður fróðlegt að heyra hvað hann hefur að segja um næstu skref sem taka verður til þess að leiða þetta stóra mál til lykta.
Sérfræðingar Íslandsbanka, sem loks verður einkavæddur að fullu í næstu viku, telja að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands muni halda stýrivöxtum óbreyttum að sinni en nefndin kynnir niðurstöðu maraþonfunda sinna á miðvikudagsmorgun í næstu viku. Meginvextir bankans eru 7,75% og þykir flestum nóg um - ekki síst verkalýðshreyfingunni.
Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka fer yfir þetta mat og hvernig horfurnar í hagkerfinu eru almennt. Það gerir hann ásamt Marinó Erni Tryggvasyni, fyrrverandi forstjóra Kviku banka. Hann vonast til þess að Seðlabankinn stígi varfærið skref í átt til vaxtalækkunar. Þar horfir hann til fjármálastöðugleika sem taka verði tillit til, 12-24 mánuði fram í tímann.
Jón Magnússon hæstaréttarlögmaður hefur ásamt hópi fleiri manna sem kynntust sr. Friðrik skoðað málið og þá hefur Morgunblaðið aflað gagna frá KFUM sem ekki hafa komið fyrir augu almennings áður.
Rætt er við Jón í lok þáttarins um þetta mál sem skók íslenskt samfélagið árið 2023 og varð meðal annars til þess að KFUM bað fórnarlömb sr. Friðriks afsökunar. Stytta af prestinum var sömuleiðis felld af stalli í Lækjargötu og bæjarstjórn Akraneskaupstaðar íhugaði að svipta hinn löngu látna klerk heiðursborgaratitli.
Í fréttum vikunnar ber páfakjöri í Róm afar hátt en sömuleiðis átökin sem nú eru farin að taka á sig alvarlegri mynd en áður milli Pakistan og Indlands. Til að ræða þessi mál og fleiri mæta þau Urður Örlygsdóttir og Oddur Þórðarson til leiks. Þau eru bæði fréttamenn á Ríkissjónvarpinu.
Til þess að ræða stjórnmálaástandið leggja þær Sigríður Á. Andersen, þingmaður Miðflokksins, og Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, orð í belg. Þar er af nægu að taka og ekki verður hjá því komist að spyrja Hildi út í það hvort nýr formaður Sjálfstæðisflokksins, Guðrún Hafsteinsdóttir, hyggist skipta henni út sem þingflokksformanni.
Hvað ætluðu útsendarar Björgólfs Thors að gera með upplýsingar um Vilhjálm Bjarnason? Tengdist það brennivíni og kvennamálum? Því svarar bílstjórinn á V 279 í Spursmálum í dag.
Með njósnara á hælunum
Vilhjálmur hefur verið í kastljósi fjölmiðla í vikunni eftir að upplýst var að njósnarar hefðu verið á hælum hans um nokkurra vikna skeið árið 2012. En hver var forsaga málsins og í hvaða illdeilum stóð Vilhjálmur sem ollu því að honum var veitt eftirför og setið var um heimili hans?
Sviðsstjóri og forsetaframbjóðandi
Í fréttum vikunnar ber þetta furðumál einnig á góma en gestir Spursmála að þessu sinni í þeim hluta þáttarins eru þeir Gylfi Þór Þorsteinsson, sviðsstjóri hjá Rauðakrossinum og Magnús Ragnarsson, formaður Tennissambandsins og nú frambjóðandi til embættis forseta Íþrótta- og ólympíusambandsins.
Nýja tækni þarf við líkbrennslu
Ber ýmislegt á góma í þeirri umræðu, meðal annars verkefni sem Rauðikrossinn fer fyrir og tengist viðbrögðum almennings ef til neyðarástands kemur. Umræðan um þetta verkefni tók talsverðan kipp þegar rafmagnslaust varð um gjörvallan Spánn og Portúgal með ófyrirséðum afleiðingum.
Í lok þáttarins verður rætt við Sigríði Bylgju Sigurjónsdóttur sem fer fyrir sjálfseignarstofnuninni Tré lífsins. Hefur hún ásamt samstarfsfólki lengi stefnt að því að byggja upp fullkomna og nútímavædda líkbrennslu hér á landi í stað þeirrar sem nú er rekin af Kirkjugörðum Reykjavíkurprófastsdæma.
Búnaðurinn sem þar er notast við stenst engar kröfur varðandi mengun og vill Sigríður meina að rétt sé að fela einkaaðilum að byggja nýja aðstöðu í þessum efnum.
Logi Einarsson, ráðherra fjölmiðlamála, hyggst standa við þá ákvörðun sína að draga úr styrkjum til tveggja stærstu einkareknu fjölmiðla landsins. Þetta staðfestir hann í samtali á vettvangi Spursmála.
Í viðtalinu er Logi einnig spurður út í ummæli sem Sigurjón Þórðarson, formaður atvinnuveganefndar Alþingis lét falla og lúta að því að refsa eigi fjölmiðlum sem ekki stunda fréttaflutning sem er honum að skapi.
Í þættinum verður einnig rætt við Loga um brýn mál sem tengjast gervigreindarkapphlaupi stórveldanna, styrki til námsmanna og sitthvað fleira.
Í fréttum vikunnar er rætt við þau Jakob Frímann Magnússon, fyrrum þingmann Flokks fólksins og Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur, fyrrverandi utanríkisráðherra.
Þar ber ýmislegt á góma, andlát páfans í Róm, skólamáltíðir og annað sem til umfjöllunar hefur verið í sneisafullri fréttaviku í upphafi sumars.
Sífellt kemur betur í ljós að ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur stefnir á stórfelldar skattahækkanir á fólk og fyrirtæki. Ásdísi Kristjánsdóttur bæjarstjóra í Kópavogi líst ekki á stöðuna. Hún er gestur Spursmála þennan föstudaginn ásamt Ernu Björgu Sverrisdóttur, aðalhagfræðingi Arion banka.
Ásdís segir að það séu ekki aðeins stórhækkuð veiðigjöld og „matseðill“ af skattahækkunum á ferðaþjónustuna sem stefni í. Þannig bendir hún á að stjórnvöld stefni að því að þvinga sveitarfélög til þess að fullnýta útsvarsprósentu þá sem leggja má á íbúana. Sveitarfélögum sem það geri ekki verði einfaldlega refsað.
Erna Björg nefnir að huga verði að því hvernig staðið er að breytingum á grunnatvinnuvegi þjóðarinnar þegar mikil óvissa ríkir á flestum sviðum, ekki síst vegna þess tollastríðs sem Donald Trump og stjórn hans í Washington hefur efnt til gagnvart flestum ríkjum heims.
Í síðari hluta þáttarins er rætt við forsvarsmenn fyrirtækisins Intuens Segulómunar sem býður upp á myndgreiningarþjónustu á heilbrigðissviði. Fyrirtækið hefur lent í kröppum dansi í tengslum við samskipti við Sjúkratryggingar Íslands og Landlækni.
Sagan sú er í meira lagi lygileg og þess virði að fræðast um það hvernig kerfið getur unnið gegn nýsköpun og uppbyggingu nýrra fyrirtækja sem efna vilja til samkeppni við fyrirtæki sem eru á fleti fyrir.
Í upphafi þáttarins er einnig kynntur til leiks Bókaklúbbur Spursmála þar sem samfélagsmálin verða krufin á síðum áhugaverðra bóka. Klúbburinn tekur til starfa í samstarfi við öfluga bakhjarla. Lækningavörufyrirtækið Kerecis, sjávarútvegsfyrirtækið Brim, Samsung og Pennann/Eymundsson.
Þjóðir heims hafa brugðist ókvæða við þeirri ákvörðun Trumps að leggja verndartolla á þjóðir heims. Sveitarfélögin er í sama gír gagnvart aðgerðum ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur.
Þetta er meðal þess sem rætt er á vettvangi Spursmála þennan föstudaginn. Í fréttum vikunnar er sannarlega vikið að ákvörðun forsetans í Washington og til samtals um það mæta fyrrum ráðherrar Framsóknarflokksins, þau Willum Þór Þórsson og Lilja Dögg Alfreðsdóttir.
Þau ræða einnig gosið á Sundhnúkagígaröðinni sem varði stutta stund og gerði minni óskunda en í fyrstu virtist stefna.
Þegar yfirferð á fréttum vikunnar sleppir mæta þeir beint frá Ísafirði og Fjarðabyggð þeir Gylfi Ólafsson, formaður bæjarráðs Ísafjarðar og Ragnar Sigurðsson, formaður bæjarráðs Fjarðabyggðar.
Sveitarstjórnarmenn í fjölmörgum sveitarfélögum hringinn í kringum landið hafa brugðist ókvæða við þeim fyrirætlunum ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur að tvöfalda veiðigjöld á útgerðir landsins. Ljóst er að sú gríðarlega skattlagning mun hafa áhrif á miklu fleiri en fámennan hóp útgerðarmanna.
Að loknu því spjalli sest Flóki Ásgeirsson, lögmaður Blaðamannafélags Íslands niður með Stefáni Einari og ræðir þann möguleika sem nú er uppi um að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins setji á laggirnar rannsóknarnefnd til þess að fara ofan í saumana á aðkomu Ríkisútvarpsins að hinu svokallaða byrlunarmáli.Flóki kemur fyrir hönd félagsins í viðtalið þar sem formaður þess, Sigríður Dögg Auðunsdóttir, treystir sér ekki á vettvang til þess að ræða fyrri yfirlýsingar sínar um málið.
Framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi segir fjármálaráðherra og atvinnuvegaráðherra halda fram ósannindum í framsetningu sinni á framlögðum tillögum um hækkun veiðigjalda.Milljarðar á milljarða ofan
Segir hún með ólíkindum að ráðherrarnir haldi því fram að útgerðin muni halda eftir óskertum hlut af hagnaði sínum eftir breytingarnar. Við blasi að það geti ekki verið þegar gjöld eru hækkuð um milljarða á milljarða ofan.
Í viðtalinu fer Heiðrún Lind einnig yfir það hvaða áhrif þessar áætlanir ríkisstjórnarinnar geta haft á fiskvinnslu vítt og breitt um landið. Segir hún að verið sé að færa kerfið í átt að því sem gert hefur verið í Noregi. Þar er fiskvinnslan ríkisstyrkt, hún víða rekin með tapi og gjaldþrot eru algeng. Þá er stór hluti aflans sem að landi berst sendur rakleitt til ríkja á borð við Pólland og Kína þar sem hann er fullunninn.
Ásamt Heiðrúnu var fjölda stjórnarþingmanna og ráðherra boðið til þátttöku í umræðunni um væntanlegar breytingar á auðlindagjöldum í sjávarútvegi. Enginn þeirra átti hins vegar tök á því að mæta til leiks.
Auk Heiðrúnar Lindar mæta í þáttinn þau Patrik Atlason tónlistarmaður og Tinna Gunnlaugsdóttir, leikari, leikstjóri og fyrrum þjóðleikhússtjóri. Þau ræða fréttir vikunnar, Eddu-verðlaunin þar sem Tinna hlaut heiðursverðlaun ásamt eiginmanni sínum, Agli Ólafssyni. Þá gaf Patrik út nýtt lag í morgun sem ber hina virðulegu yfirskrift, Sykurpabbi.
Í lok þáttarins mætir á svæðið Jón Gunnar Jónsson, fyrrum forstjóri Bankasýslu ríkisins. Í liðinni viku voru þrjú ár frá því að íslenska ríkið losaði um ríflega 50 milljarða hlut í Íslandsbanka í útboði sem átti eftir að draga dilk á eftir sér. Svo stóran raunar að Bjarni Benediktsson sagði af sér embætti fjármála- og efnahagsráðherra.
Jón Gunnar vill meina að þarna hafi farið fram farsælasta útboð Íslandssögunnar. En í þættinum er sagan að baki því rakin, einnig rætt um núverandi fyrirætlanir stjórnvalda um að ljúka sölu á eftirstæðum hlut sínum í Íslandsbanka. Þá er Jón Gunnar einnig spurður út í atburðarásina sem leiddi til þess að Landsbankinn keypti tryggingafélagið TM í heilu lagi, í trássi við vilja langstærsta eiganda bankans, ríkissjóðs Íslands.
Ekkert kemst á dagskrá þennan fréttadaginn annað en afsögn barna- og menntamálaráðherra. En hver verður eftirleikur málsins? Er ríkisstjórnin í hættu? Hefur orðspor Íslands skaðast á erlendum vettvangi?
Svara við þessum spurningum verður leitað á vettvangi Spursmála þennan föstudaginn. Til þess að ræða pólitíkina í málinu mæta þau til leiks, Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og Snorri Másson, þingmaður Miðflokksins.
Lögmenn rýna í stöðuna
Að lokinni þeirri umræðu eru þeir væntanlegir á vettvang lögmennirnir Sigurður G. Guðjónsson og Árni Helgason, sem einnig er varaþingmaður.
Þeir ætla að ræða annað stórt mál sem skekið hefur íslenskt samfélag síðustu vikur og varðar einnig Ásthildi Lóu Þórsdóttur, fráfarandi ráðherra. Í ljós hefur komið að Arion banki afhenti henni og eiginmanni hennar fasteign í Garðabæ árið 2019 langt undir markaðsvirði. Hvaða áhrif hafa þær upplýsingar, meðal annars á afstöðu skattayfirvalda?
Á Framsókn sér viðreisnar von?
Í lok þáttar mun Guðni Ágústsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, mæta á vettvang en þann 13. mars skrifaði hann grein þar sem hann kallar eftir endurreisn Framsóknarflokksins. Miðstjórn hans mun funda á Akureyri um helgina og í viðtalinu mun Guðni upplýsa hvað hann telji að þurfi að gera til þess að þessi elsti stjórnmálaflokkur nái vopnum sínum að nýju.
Á sama tíma og Donald Trump leggur tolla á nágrannaríki Bandaríkjanna, Kína og Evrópusambandið reynir hann að toga Úkraínumenn og Rússa að samningaborðinu. Hann kallar eftir friði í Evrópu.
Er Trump í ruglinu?
Tryggvi Hjaltason nam hernaðar- og varnarmálafræði í Bandaríkjunum og þá lauk hann einnig þriggja ára liðsforingjaþjálfun hjá Bandaríkjaher. Hann hefur teiknað upp ólíkar sviðsmyndir um það hvað Trump hyggist fyrir og hvaða árangri hann hefur í hyggju að ná þegar kemur að málefnum Úkraínu, NATO en ekki síst baráttunni um hernaðarlega yfirburði á heimssviðnu. Þar gera Kínverjar sig sífellt líklegri til þess að skáka Bandaríkjunum.
Dr. Ragnar Árnason, prófessor emeritus í hagfræði við Háskóla Íslands hefur að undanförnu fjallað ítarlega um kosti og galla þess að Ísland gengi í Evrópusambandið. Hefur hann t.d. bent á að það sé tómt mál að tala um eina tiltekna húsnæðisvexti á evrusvæðinu. Þar muni miklu milli ólíkra hagkerfa.
Hefur hann tekist nokkuð hart á við Dag B. Eggertsson um þessi mál. Var þeim báðum boðið í þáttinn, bæði í þessari viku og hinni fyrri og þáði Ragnar boðið.
Í fréttum vikunnar er rætt við tvo alþingismenn sem bera sitthvorn heiðurstitilinn. Jónína Björk Óskarsdóttir er elsti núverandi þingmaðurinn en hún situr á þingi fyrir Flokk fólksins. Ingvar Þóroddsson er þingmaður Viðreisnar og er hann yngstur þingmanna sem nú sitja.
Hvar liggja mörk friðhelgi einkalífsins og hvar tekur réttur almennings til upplýsingagjafar við? Eva Hauksdóttir, lögmaður Páls Steingrímssonar ræðir það í Spursmálum. Og margt fleira er á dagskrá.
Rósa Guðbjartsdóttir, alþingismaður og fyrrum bæjarstjóri í Hafnarfirði ræðir fréttir vikunnar ásamt Birni Brynjúlfi Björnssyni, framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs. Rósa hafði aðkomu að gerð kjarasamninga við kennara og í þættinum verður hún spurð út í meinta aðkomu Ásthildar Lóu Þórhallsdóttur, menntamálaráðherra að gerð samninganna og eins framgöngu Heiðu Bjargar Hilmisdóttur, formanns Samtaka íslenskra sveitarfélaga.
Sú síðastnefnda einangraði sig frá allri stjórn samtakanna þegar hún sagðist reiðubúin fyrir hönd Reykjavíkur að ganga til samninga við kennara, jafnvel þótt öll önnur sveitarfélög landsins væru ekki til í að bjóða upp í þann dans.
Björn Brynjólfur kynnti fyrr í vikunni ásamt samstarfsfólki sínu skýrslu um fjölmiðlamarkaðinn og það hvernig Ríkisútvarpið gín yfir öðrum fyrirtækjum á þeim markaði.
Þá verður tali einnig vikið að nýjum hagræðingartillögum sem ríkisstjórnin er komin með á sitt borð. Þar er stefnt að því að spara 70 milljarða á næstu fimm árum. Það eru innan við 1% aðhaldsaðgerðir á hvert ár.
Í þættinum er einnig rætt við Álfhildi Leifsdóttur, sveitarstjórnarkonu í Skagafirði og framákonu í Vinstrihreyfingunni grænu framboði. Hún er afar ósátt við þær fyrirætlanir meirihlutans í sveitarfélaginu að selja tvö af tíu félagsheimilum héraðsins. Hún ræðir þau mál og stöðu VG sem virðist rústir einar eftir það afhroð sem flokkurinn galt í síðustu alþingiskosningum.