
Er íslenski ríkisfjölmiðillinn í sams konar vanda og BBC í Bretlandi sem nú sætir harðri gagnrýni fyrir vinnubrögð og hlutdrægni í fréttaflutningi sínum?
Þeir Ingvar Smári Birgisson, lögmaður og stjórnarmaður í RÚV, og Páll Magnússon, fyrrverandi útvarpsstjóri og alþingismaður mæta í settið til að fara yfir málið. Þeir þekkja vel til málavaxta í Bretlandi þar sem fréttamenn urðu uppvísir að því að afvegaleiða áhorfendur þegar kom að umfjöllun um Donald Trump, forseta Bandaríkjanna.
Þá ræða helstu fréttir vikunnar þær Bjarnheiður Hallsdóttir, fyrrverandi formaður Samtaka fyrirtækja í ferðaþjónustu, og Vigdís Hauksdóttir, lögfræðingur og fyrrverandi borgarfulltrúi.
Í þeirri umræðu ber einna hæst ástand efnahagsmála í landinu en sú ákvörðun ESB að falla ekki frá hækkun verndartolla á framleiðsluvörur Elkem á Íslandi eru nýjasta dæmið af mörgum skakkaföllum sem íslenskt efnahagslíf hefur orðið fyrir síðustu vikur og mánuði.
Í lok þáttarins verður rætt við Benedikt Gíslason, forstjóra Arion banka, en hann og samstarfsmenn hans hafa staðið í ströngu að undanförnu við að bregðast við nýjasta dómi Hæstaréttar í máli Neytendasamtakanna gegn bönkunum.