Í þættinum ræðir Kristín Svava Tómasdóttir við Davíð Ólafsson, sagnfræðing og dósent við íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands, um nýútkomna bók hans og Arndísar S. Árnadóttur, Mynd og hand. Skólasaga 1939–1999. Í þættinum spjalla Kristín Svava og Davíð vítt og breytt um bókina og sögu Myndlista- og handíðaskóla Íslands, allt frá því að hann hóf að starfa í fjórum geymsluherbergjum í kjallara við Hverfisgötu árið 1939 og þar til hann var lagður niður samhliða stofnun Listaháskóla Íslands árið 1999.
Forsíðugrein Sögu að þessu sinni fjallar um myndabókina Tindátanna eftir Nínu Tryggvadóttur og Stein Steinarr sem Ragnar í Smára gaf út árið 1943. Í Blöndu að þessu sinni ræðir Haukur Ingvarsson við höfund greinarinnar, Jón Karl Helgason bókmenntafræðing.Meðal þess sem ber á góma er sú merkilega forspá sem í bókinni felst. Nína og Steinn spá þar ekki aðeins fyrir um endalok Adolfs Hiltlers heldur einnig fund leiðtoga bandamanna, þeirra Stalíns, Roosevelts of Churchills, sem fram fór í borginni Yalta vorið 1945.
Í þessum þætti Blöndu ræðir Markús Þórhallsson við Önnu Agnarsdóttur, prófessor emerítus í sagnfræði, um sjálfsævisögu Klemensar Jónssonar sem Sögufélag gefur út og hún ritstýrir ásamt Áslaugu systur sinni. Klemens var af fátæku fólki kominn sem tryggði honum þó þá bestu menntun sem möguleg var á seinni hluta 19. aldar. Þessi föðurafi systranna komst til metorða á umbrota- og breytingatímum í íslensku samfélagi. Hann var framfarasinnaður og djarfhuga að sögn Önnu, „hann var alltaf iðinn“ segir hún. Sjálfsævisagan er hispurslaus, bæði um stjórnmál, gleði og harm Klemensar og um menn og málefni hans tíðar.
Var vistarbandið ánauð og vinnuhjú þrælar? Um það skeggræða höfundur bókarinnar Sjálfstætt fólk. Vistarband og íslenskt samfélag á 19. öld, Vilhelm Vilhelmsson og Markús Þórhallsson.
Ævar Kjartansson ræðir við höfundinn, Skafta Ingimarsson, um bók hans, Nú blakta rauðir fánar, m.a. hvers vegna kommúnistahreyfingin á Íslandi var jafn öflug og raun ber vitni einnig um valdabaráttuna innan hreyfingarinnar og togstreituna milli Reykjavíkur og landsbyggðarinnar, sem fram kom í starfi hennar.
Mörk (grænser / borders) er yfirskrift Norræna sagnfræðingaþingsins sem haldið verður í Háskóla Íslands dagana 13–15 ágúst. Dagskráin er gríðarlega fjölbreytt og spennandi en meðal efna sem fjallað verður um eru: Samskipti manna og dýra, umhverfissaga, stríð og friður, menning og stjórnmál miðalda, kalda stríðið í nýju ljósi, söguskoðun, minni og stjórnmál, áskoranir í sögukennslu og norræn einsöguhefð.Ása Ester Sigurðardóttir og Valgerður Pálmadóttir úr skipulagsnefnd Norræna sagnfræðingaþingsins 2025 ræða saman um dagskrána og mikilvægi þingsins fyrir íslenska sagnfræði í léttu spjalli!
Hverjir áttu Ísland? Jón Kristinn Einarsson ræðir við Guðmund Jónsson, ritstjóra bókarinnar, Ástand Íslands um 1700, í glænýjum Blönduþætti. Þeir fara vítt og breitt um sviðið og velta upp hvernig var að búa á gamla Íslandi, landi bænda og sjómanna, höfðingja og almúgamanna.
Bókin er samstarfsverkefni sjö fræðimanna og byggir á stórmerkilegum heimildum, jarðabókinni, kvikfjártalinu og manntalinu, sem var safnað saman á Íslandi við upphaf átjándu aldar. Í ritinu kynnumst við hinu íslenska bændasamfélagi á alveg nýjan hátt. Fjölskyldur og heimili, byggð og búsvæði, jarðaskipan og ólík húsakynni fólks birtast okkur ljóslifandi. Staða og hagur ólíkra stétta og hópa, allt frá höfðingjum til lausingja og ómaga er til umræðu sem og eignarhald jarða.
Það fer vel á því að ræða um mótun lýðræðis á 80 afmælisári lýðveldisins. Nýr þáttur að Blöndu kominn í loftið. Jón Kristinn Einarsson og Hrafnkel Lárusson spjalla um bók Hrafnkels, Lýðræði í mótun.
Þar spjalla þeir um vöxt frjálsra félaga og samtaka á árabilinu 1874-1915 og hvernig almenningur, með þátttöku sinni í þeim, setti mark sitt á íslenska samfélags- og lýðræðisþróun. Hvernig breytingar á hugsun venjulegs fólks urðu á tímabilinu, hvernig það efldist af þrótti í félagslegu tilliti, stofnaði félög, ræddi saman um áhugamál sín og vandamál, en lenti líka í deilum við aðra í kringum sig, jafnvel málaferlum, og hvernig félagsstarfið varð til þess að móta og þjálfa lýðræðislega undirstöðu fyrir þátttöku venjulegs fólks í samfélaginu, ekki síst þegar formlegum réttindum var náð þegar líða tók á 20. öld.
Í þættinum ræðir Katrín Lilja við Kolbein Rastrick sem ritaði grein við forsíðumynd Sögu tímarits Sögufélagsins sem kom út í lok árs 2023. Í greininni, sem er byggð á BA-ritgerð Kolbeins úr kvikmyndafræði, greinir Kolbeinn kvikmyndir sem teknar voru af óeirðunum við Austurvöll 30. mars 1949, daginn sem umræður voru á Alþingi um inngöngu Íslands í NATO.
Bókin, Strá fyrir straumi. Ævi Sigríðar Pálsdóttur 1808-1871, sem hlaut viðurkenningu Hagþenkis nú á dögunum er til umfjöllunar í nýjum Blöndu þætti Sögufélags.
Bragi Þorgrímur Ólafsson og Erla Hulda ræða saman um sögu Sigríðar Pálsdóttur, sem skildi eftir sig vitnisburð um ævi sína í formi 250 bréfa sem hún skrifaði bróður sínum, Páli Pálssyni stúdent, 1817-1871.
Þessi bréf, og viðamikið bréfasafn Páls stúdents, nýtir Erla Hulda til að lýsa ævi Sigríðar, lífi hennar og viðhorfum, börnum, fjölskyldum og vinafólki, flutningum, sigrum og áföllum.
Í spjallinu er rætt um líf Sigríðar, stefnur og strauma innan ævisagnaritunar, bréf kvenna á nítjándu öld, tengsl við stórsögu, kynhlutverk og kvenréttindi um miðja 19. öld, tengsl höfundar við viðfangsefni sitt og margt fleira.
Þátturinn er helgaður íslenskri kvikmyndasögu. Gunnar Tómas Kristófersson, sérfræðingur á Kvikmyndasafni Íslands og doktorsnemi í kvikmyndafræði, hefur verið ötull við að skrifa í tímaritið Sögu undanfarin ár. Hann hefur birt greinar um fyrstu konurnar sem leikstýrðu kvikmyndum á Íslandi, Ruth Hanson og Svölu Hannesdóttur, og um kvikmyndagerð Vigfúsar Sigurgeirssonar. Nýjasta grein hans mun birtast í vorhefti Sögu 2025 en hún fjallar um kynslóðaskiptin í íslenskri kvikmyndagerð á sjöunda áratug 20. aldar og kvikmyndir Ósvalds Knudsen, sem var maður á mörkum tveggja tíma. Kristín Svava Tómasdóttir, ritstjóri Sögu, ræðir við Gunnar Tómas um rannsóknir hans en einnig um Kvikmyndasafn Íslands og þann fjársjóð sem þar leynist.
Markús Þórhallsson ræðir við Eggert Ágúst Sverrisson um nýútkomna bók hans Drottningin í Dalnum. Þetta er fyrsta bók Eggerts á þessum vettvangi. Hann lauk námi í viðskiptafræðum 1974 og starfaði að mestu við fjármál og vátryggingar á starfsferli sínum. Þegar hann lét af störfum fór hann í nám í sagnfræði og lauk BA námi 2019. Þá hóf hann að skrifa þessa einstöku bók sem er gott heimildarrit sem bregður ljósi á hag- og samfélagssögu Íslendinga í tæplega eina og hálfa öld. Þar sem megin stef bókarinnar er samfélagslýsing árin 1800 til 1940 ræða þeir Markús og Eggert Ágúst nokkuð hinar ýmsu hliðar samfélagsgerðarinnar á 19. öld s.s. híbýli fólks, fátækraframfærslu, vinnufólk og stöðu jarðeigenda og leiguliða og samskipti þeirra í gegnum aldirnar. Sérstaklega er áhugavert mat Eggerts á leigu jarða um miðja 19. öld og samanburður við leigukjör nútímans. Þeir ræða þjóðfélags breytingarnar frá sveitasamfélaginu í þéttbýlissamfélagið sem jafna má við byltingu. Markús og Eggert ræða töluvert efnahagsþróun tímabilsins en þar nýtir Eggert hagfærði- og sagnfræðiþekkingu sína m.a. með því að greina 140 ára tímaskeið í 11 hagþróunar tímabil þar sem farið er mjög ítarlega í gegnum efnahagsstarfsemi hvers tímabils.
Sumarólympíuleikarnir í London árið 1948 voru merkilegir fyrir margra hluta sakir. Vegna seinni heimsstyrjaldarinnar höfðu ekki verið haldnir Ólympíuleikar í 12 ár, en aðstæður í London voru erfiðar svona stuttu eftir stríð og stundum er talað um „meinlætaleikana“ af þeim sökum. Þetta voru líka fyrstu sumarleikarnir sem Ísland keppti á eftir lýðveldisstofnun og Íslendingar höfðu metnað til að standa sig vel. Ísland sendi því stóran flokk á leikana og íslenskar konur þreyttu frumraun sína á Ólympíuleikum.
Haraldur Sigurðsson hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir Samfélag eftir máli: Bæjarskipulag á Íslandi og fræðin um hið byggða umhverfi. Í þessum þætti Blöndu ræðir hann við Einar Kára Jóhannsson um víðfeðmt efni bókarinnar.
Samfélag eftir máli fjallar um skipulag borgar, bæja og þorpa á Íslandi á 20. öldinni. Í aðra röndina er rakin saga skipulagsgerðar og þéttbýlis og í hina hugmyndasaga skipulagsfræðanna og módernismans. Sjónum er einkum beint að mótun borgarskipulags í höfuðstað landsins en einnig að viðleitni ríkisvaldsins til að koma skipulagi á smærri bæi og þorp landsins. Sagan snertir á mörgum helstu álitamálum nútímasamfélaga, hvort sem litið er til húsnæðismála, samgöngumála, lýðsheilsumála eða umhverfismála. Þetta er yfirgripsmikið sagnfræðirit, með gagnrýnum undirtóni, sem byggir á áralangri rannsókn og víðtækri reynslu Haraldar af skipulagsmálum.
Kristín Loftsdóttir, prófessor í mannfræði, segir hlustendum Blöndu frá nýrri bók sinni Andlit til sýnis. Í bókinni er lítið safn á Kanaríeyjum í brennidepli en þar má finna brjóstafsteypur af fólki frá ólíkum stöðum heimsins sem gerðar voru á nítjándu öld. Þar á meðal eru brjóstmyndir sjö Íslendinga.
Þriðja bindi Yfirréttarins kom út 28. september. Ragnhildur Hólmgeirsdóttir sagnfræðingur og einn af þremur ritstjórum verksins segir hlustendum Blöndu upp og ofan af útgáfunni, heimildaleit og gloppóttum skjalasöfnum. Hér má heyra af hægfara hnignun Odds Sigurðssonar og uppþoti í kirkju og þjófnaðarmáli Þorsteins Jónssonar, sem annað hvort var öreigi eða gekk um með parrukk og innsiglishring.
Katrín Lilja Jónsdóttir er nýr umsjónarmaður Blöndu.
Í þættinum ræðir Jón Kristinn við Kristjönu Kristinsdóttur um bókina Lénið Ísland sem kom út árið 2021. Bókin er byggð á doktorsritgerð hennar og er mikilvæg grunnrannsókn á vanræktu tímabili í Íslandssöguni.
Rithöfundurinn Sjón hefur skrifað margar sögulegar skáldsögur. Í þessum þætti ræðir hann við Einar Kára um hvernig hann nýtir sér frumheimildir og nýjustu rannsóknir í sagnfræði. Hann ræðir einnig viðhorf sitt til sögunnar og muninn á stöðu fræðimannsins og skáldsins.
Í tilefni þjóðhátíðardagsins ræðir Jón Kristinn við Pál Björnsson um framhaldslíf Jóns Sigurðssonar í sögulegu minni landsmanna. Lagt er út af bók Páls, Jón forseti allur? sem kom út árið 2011 og hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin sama ár.
Guðni Th. Jóhannesson, sagnfræðingur og forseti Íslands, ræðir bók sína Stund milli stríða. Saga landhelgismálsins, 1961-1971 við Markús Þórhallsson. Upptaka fór fram á bókakvöldi eftir aðalfund Sögufélags þann 21. febrúar 2023. Guðni segir meðal annars að saga landhelgismálsins sé þjóðarsaga og að forðast skal að reisa glæstar vörður þegar slík mál eru tekin fyrir. Hann segir frá breyttum áherslum sínun í sagnaritun eftir að hann tók við embætti forseta Íslands og áhrif spennusagnahöfundarins Tom Clancy á skrif sín. Þá kom honum á óvart að nýjar upplýsingar um pólitískar hleranir og njósnir hafi ekki vakið meira umtal.