
Í þessum þætti Blöndu ræðir Markús Þórhallsson við Önnu Agnarsdóttur, prófessor emerítus í sagnfræði, um sjálfsævisögu Klemensar Jónssonar sem Sögufélag gefur út og hún ritstýrir ásamt Áslaugu systur sinni. Klemens var af fátæku fólki kominn sem tryggði honum þó þá bestu menntun sem möguleg var á seinni hluta 19. aldar. Þessi föðurafi systranna komst til metorða á umbrota- og breytingatímum í íslensku samfélagi. Hann var framfarasinnaður og djarfhuga að sögn Önnu, „hann var alltaf iðinn“ segir hún. Sjálfsævisagan er hispurslaus, bæði um stjórnmál, gleði og harm Klemensar og um menn og málefni hans tíðar.