(Þáttur 7 var lengi í lagfæringum til að lappa upp á hljóðgæði og fer því í loftið á eftir þætti 8. )
Í þessum þætti er fjallað um breytingaskeiðið og þau vandamál sem konur geta upplifað á þessu merkilega umbreytinga tímabili. Breytingaskeið karla fær lítið pláss en þó er fjallað stuttlega um þau einkenni sem karlar geta upplifað. Það er munur á upplifun kvenna af breytingaskeiðinu á Vesturlöndum og þróunarlöndunum.
Konur í þróunarlöndunum virðast sjaldnast upplifa sama vanda og Vestrænar konur þegar frjósemin og blæðingar hætta. Á Vesturlöndum hefur enda viðhorfið verið mikil æskudýrkun og þar með eru konur gjaldfelldar þegar breytingaskeiðinu er náð en það er þveröfugt í t.d. Austurlöndum og almennt í þróunarlöndunum. Þar öðlast kona aukna virðingu með aldrinum.
Í ayurveda er sjónarhornið ólíkt því sem tíðkast í Vestrænum lækningum. Þetta þykir gæfuskeið. Konan tapar líkamlegri frjósemi en öðlast aukna andlega frjósemi í staðinn. Æviskeiðin eru þrjú: Kapha æviskeiðið þegar við erum að þroskast og vaxa úr grasi; Pitta æviskeiðið sem er miðbik ævinnar og þá erum við á barneignaraldri og hormónaframleiðslan er öflug; Vata æviskeiðið sem er síðasta æviskeiðið þegar framleiðsla hormóna minnkar og almennt hægir á efnaskiptum og þurrkurinn í vefjunum eykst. Fínlegri orka (Vata) fer að að ríkja í okkur í auknum mæli eftir því sem við eldumst.
Til að minnka neikvæð áhrif breytingaskeiðsins eins og hitakóf, svefnleysi, bjúg og pirring eru ayurvedafræðin með ýmis verkfæri sem farið er í í þættinum. Nokkrar jurtir eru góðar og þar á meðal eru það rhodiola, shatavari, ashwaganda, tulsi og aloe vera.