Við bjóðum velkomna Margréti Dóru Ragnarsdóttur sem alltaf er kölluð Magga Dóra. Hún lauk grunnnámi í sálfræði frá Háskóla Íslands og meistaranámi í tölvunarfræði frá sama skóla árið 2003. Hún á að baki fjölbreyttan starfsferil bæði hér á landi og í Bandaríkjunum og starfaði meðal annars hjá hönnunarstofunni Mad*Pow í Boston í 6 ár við notendarannsóknir og stafræna vegferð stórra fyrirtækja. Á Íslandi starfaði Magga Dóra m.a. fyrir OZ og Símann ásamt því að vera aðjúnkt við Háskóla Íslands. Í dag rekur Magga Dóra fyrirtækið Mennska ráðgjöf, þar sem öll verkefni eru unnin út frá sjónarhóli þess sem verður fyrir áhrifum tækninnar, meðfram því að kenna þjónustu- og upplifunarhönnun við tölvufræðideild Háskólans í Reykjavík.
Í þættinum ræða Hildur og Magga Dóra meðal annars:
- Bankastýrudrauma bernskunnar
- Hvað varð til þess að hún valdi að fara í sálfræði og hvernig það nám hefur verið góður grunnur fyrir allt sem á eftir kom
- Hvernig tölvunarfræðin og sálfræðin spiluðu saman og nördinn fékk að blómstra
- Tímann og „meistaranámið“ hjá OZ og þau öguðu vinnubrögð sem voru viðhöfð hjá fyrirtækinu
- Hvað það er gefandi að kenna og kveikja áhuga nemanda
- Árin og verkefnin hjá Mad*Pow og lífið í Boston
- Verkefnið MPACT og hvernig þau unnu borðspil sem hjálpaði fyrirtækjum að vinna með persónur til að nota í hugbúnaðarþróun
- Stofnun Mennskrar ráðgjafar, sérhæfingu fyrirtækisins og þau fjölbreyttu verkefni sem fyrirtækið er að sinna
- Hvað það er gefandi að hafa jákvæð áhrif á umhverfið í kringum sig með tækni
- Ákvörðunina um hætta að tala um að hafa „brjálað að gera“- að hafa frelsi til að sinna fjölskyldu og vinum en sinna á sama tíma gefandi verkefnum
- Hvað það er nærandi að spila skrafl, fara á tónleika og í leikhús og hitta góða vini
Þátturinn er í boði: Geko, Taktikal og Tern Systems