Nú þann 22. janúar gengur nýtt ár kanínunnar í garð samkvæmt hinu kínverska dagatali. Þau Anna og Magnús staldra því við og líta um öxl á ár tígursins sem reyndist nokkuð viðburðaríkt.
Í hlaðvarpsþætti dagsins eru meðal annars rifjuð upp viðtöl við góða gesti og spiluð brot af því besta sem á boðstólum var.
Saga þessa málsháttar er frá tímum Song-veldisins sem frægt var fyrir öflug viðskipti og efnahag, menningarlíf, matargerðarlist og fjölmargt fleira. En þrátt fyrir þetta mikla blómaskeið var Song-veldi raunar umkringt óvinum. Við fylgjumst með viðbrögðum Zhēnzōng keisara og ráðgjafa hans þegar Khitanar úr Liao-veldi norðursins gera innrás, sumarið 1004.
Þátturinn er þýddur og birtur með leyfi Lazlo Montgomery hjá ©Teacup Media.
Lína Guðlaug Atladóttir, viðskiptafræðingur og Austur-Asíufræðingur, segir okkur frá bók sinni Rót sem hún gaf sjálf nýverið út. Bókin er uppfull af spennandi fróðleik um Kína og þá ævintýralega nútímavæðingu sem þar hefur átt sér stað, skrifuð á léttum og persónulegum nótum. Lína hóf Kínavegferð sína árið 2003 þegar hún fór til Kína að sækja dóttur til ættleiðingar og hefur æ síðan haldið áfram að kafa dýpra inn í þennan menningarheim.
Í þættinum er fjallað um kínverska læknislist og hvers vegna hún er að ýmsu leyti jafn hátt skrifuð og hin vestrænu læknavísindi í Kína. Í kínverskum sjúkrahúsum og heilsugæslustöðvum finnast tvenns konar lyfjageymslur, bæði fyrir vestræn lyf og kínversk. Þar ríkir ekki sama skipting og við eigum að venjast í hefðbundnar og óhefðbundnar lækningar. Kínversku jurtalækningarnar, taiji-æfingar, nuddmeðferðir og nálastunga hafa sinn sess sem annar af tveimur helstu möguleikum fyrir meðferðir á hvers kyns sjúkleika.
Höfundur pistilsins er Steingrímur Þorbjarnarson sem einnig les upp.
Sagan með málshætti dagsins er frá Vor- og haust tímabilinu, á 6. öld fyrir okkar tímatal. Þegar Dìng konungi af Zhèng bárust fregnir af yfirvofandi árás frá Wú-ríki varð hann skelfingu lostinn. Wú-herinn var þekktur fyrir styrk sinn og sömuleiðis Wǔ hershöfðingi sem leiddi herinn og var persónulegur vinur Sunzi (sem ritið Hernaðarlistin er eignað). Wǔ hershöfðingi hélt að þeirra biði auðveldur sigur en annað kom á daginn.
Þátturinn er þýddur og birtur með leyfi Lazlo Montgomery hjá ©Teacup Media.
Íslenska fyrirtækið Carbon Recycling International hefur komið sterkt inn á alþjóðlegan markað með lausnir til að binda koltvísýring og vinna úr honum metanól. Verksmiðja á vegum fyrirtækisins var nýlega gangsett í Kína og önnur á leiðinni. Í viðtalinu fræðir Ómar Sigurbjörnsson, markaðsstjóri fyrirtækisins, okkur um það einstaka hugvit sem fyrirtækið hefur upp á að bjóða og hefur hlotið heimsathygli fyrir, starfsemina víða um heim sem og verkefni þess í Kína.
Kína er oft á tíðum nefnt land drekans. Teikningar af kínverska drekanum hafa sín sérkenni þar sem hann hlykkjast langur og skrautlegur um himinhvolfið. Segja má að í Kína sé bókstaflega allt tengt drekanum, landið, hafið, náttúruöflin og þjóðin. Því er ekki um einn dreka að ræða, heldur marga, og þeir skiptast í mismunandi flokka. Þannig finnast tilvísanir milli raunverulegra aðstæðna og eiginleika þessara dreka hvarvetna.
Höfundur pistilsins er Steingrímur Þorbjarnarson sem einnig les upp.
Fyrir þennan málshátt þurfum við að ferðast aftur á tímabil hinna stríðandi ríkja, á 4. öld fyrir okkar tímatal. Heimildin sem þessi málsháttur er tekin upp úr er Zhànguócè《战国策》eða Strategíur hinna stríðandi ríkja, sem er ein af fáum upprunalegum heimildum frá þessum tíma. Þetta er sagan um refinn og tígurinn.
Þátturinn er þýddur og birtur með leyfi Lazlo Montgomery hjá ©Teacup Media.
Í mjög áhugaverðu viðtali segir Sigurður Guðmundsson myndlistamaður okkur frá dvöl sinni og störfum í kínversku borginni Xiamen síðastliðin 25 ár. Þar hefur hann, ásamt konu sinni Ineke Guðmundsson, sett á stofn listamiðstöðina China European Art Center (CEAC) til að tengja saman kínverska og erlenda listamenn. Í viðtalinu fer Sigurður yfir starfsemi miðstöðvarinnar og fjallar um kynni sín af Kína og Kínverjum. Sigurður liggur ekki á skoðunum sínum um hin ýmsu mál og gaman að heyra hans sjónarhorn eftir langa dvöl í Kína.
Málsháttur dagsins á sér göfugar rætur þar sem uppruni hans er í sjálfu Shǐjì (史记), eða Skrám stórsagnfræðingsins, sem er magnum opus sagnaritarans Sīmǎ Qiān. Sagan er frá Tímabili hinna stríðandi ríkja, sem varði á síðari helmingi Austur-Zhou-veldisins. Þetta var blóðugt tímabil og í Gulafljótsdalnum finnast enn stríðsminjar þess í jörðu. Hún gerist á tímum konungsins Zhāoxiāng af Qín, á 3. öld fyrir Krist. Hann var langafi Qín Shǐhuáng, fyrsta Kínakeisara, og var með stórtæk plön rétt eins og barnabarn hans síðar meir.
Þátturinn er þýddur og birtur með leyfi Lazlo Montgomery hjá ©Teacup Media.
Hér er fjallað um kínverska tungu og sérstöðu hennar. Jafnframt er fjallað um nokkur vafaatriði og jafnvel misskilning sem vart verður í umfjöllun um þetta tungumál. Kína er svo stórt, fjölmennt og margbreytilegt land, að erfitt er að segja til um hversu mörg mál eru töluð þar. Á hinn bóginn er hið opinbera mál sem við nefnum mandarínsku vel skilgreint.
Höfundur pistilsins er Steingrímur Þorbjarnarson sem einnig les upp.
Málshátturinn sem við lítum á í dag er frá tímum Tang-veldisins, seint á 7. öld, og við sögu kemur sjálf keisaraynjan Wǔ Zétiān. Þetta er sígildur fjögurra tákna málsháttur sem á yfirborðinu virðist hafa fremur óljósa merkingu en á sér forvitnilega baksögu með frekar svæsinn enda.
Þátturinn er þýddur og birtur með leyfi Lazlo Montgomery hjá ©Teacup Media.
Þetta er seinni þáttur af tveim um lífshlaup eins mikilvægasta stjórnmálamanns Kína á 20. öldinni, Deng Xiaoping. Lífshlaup Dengs er einstaklega áhugavert og í þessum seinni þætti er áfram rakin vegferð hans innan Kommúnistaflokksins og áhrif á stefnu Kína.
Eftir að hafa farið 25 sinnum til Kína og þar af fjölmörg skipti með íslenska ferðamenn með sér segir Héðinn Svarfdal okkur frá áhugaverðum stöðum til að heimsækja. Eins spjölluðum við um að hverju þurfi að huga við undirbúning fyrir ferðalag til Kína og hvers ferðalangar megi búast við þar austur frá.
Þáttur dagsins færir okkur bæði skemmtilegan og nærandi kínverskan málshátt. Hér er á ferð sígildur málsháttur frá síðustu árum Austur-Han-veldisins. Það er svo ekki hægt að ræða um lok Austur-Han-veldisins án þess að Cáo Cāo komi við sögu.
Sagan gerist á 3. öld í Shǎnxi-héraði, í kringum borgina Hànzhōng. Hànzhōng varð bitbein erkifjendanna Cáo Cāo og Liú Bèi sem báðir voru öflugir herforingjar og leiðtogar.
Þátturinn er þýddur og birtur með leyfi Lazlo Montgomery hjá ©Teacup Media.
Kristín Ketilsdóttir fór snemma til Kína, heillaðist af hjólreiðum og kynntist ýmsum afskekktum svæðum Kína hjólandi ein síns liðs. Í viðtali dagsins segir hún okkur ótrúlegar ferðasögur um Kína á hjólinu sínu. Seinna fór hún að keppa í þríþraut vítt og breytt um Kína og segir okkur af því. Reynslan í Kína hefur gefið Kristínu ótrúlega innsýn í þetta stóra og fjölbreytta land sem fáir Íslendingar hafa upplifað.
Saga þessa málsháttar á upptök sín alla leið aftur á Tímabili hinna stríðandi ríkja, í hinu langlífa Zhou-veldi. Langfrægastur allra frá þessu tímabili var Konfúsíus og þekktasti fylgismaður Konfúsíusar var Mensíus sem Kínverjar kalla Mèngzǐ.
Mèngzǐ var frá Qí-veldi, þar sem í dag er Shandong-hérað, og var hann oft boðaður á fund stórhuga konungsins í höllinni til ráðlegginga. Málsháttur dagsins er beint úr samnefndri bók hans sem kallast Mèngzǐ.
Þátturinn er þýddur og birtur með leyfi Lazlo Montgomery hjá ©Teacup Media.
Sumir kannast við enska hugtakið Ping Pong Diplomacy og geta tengt það við ákveðin tímamót í samskiptasögu Bandaríkjanna og Alþýðulýðveldisins Kína. Flestir hafa kannski heyrt það minnst en þekkja ekki beint söguna að baki þess. Í þessum þætti rennum við aðeins yfir þessa áhugaverðu sögu og sjáum hvernig borðtennis breytti heimssögunni.
Í sumar munum við endurflytja 5 þætti um kínverska tónlist sem Arnþór Helgason gerði fyrir Ríkisútvarpið fyrir um 20 árum síðan. Við fengum góðfúslegt leyfi Arnþórs og Ríkisútvarpsins til að endurflytja þessa þætti og þökkum við kærlega fyrir það. Þáttastjórnenda þarf vart að kynna fyrir þeim sem þekkja eitthvað til Kína. Arnþór Helgason varð snemma hugfanginn af kínverskri tónlist og án efa má fullyrða að hann sé sá Íslendingur sem þekkir best til tónlistar þar austur frá.
Í sumar munum við endurflytja 5 þætti um kínverska tónlist sem Arnþór Helgason gerði fyrir Ríkisútvarpið fyrir um 20 árum síðan. Við fengum góðfúslegt leyfi Arnþórs og Ríkisútvarpsins til að endurflytja þessa þætti og þökkum við kærlega fyrir það. Þáttastjórnenda þarf vart að kynna fyrir þeim sem þekkja eitthvað til Kína. Arnþór Helgason varð snemma hugfanginn af kínverskri tónlist og án efa má fullyrða að hann sé sá Íslendingur sem þekkir best til tónlistar þar austur frá.