
Gestir í skákþættinum eru FIDE-meistararnir Björn Ívar Karlsson, skólastjóri Skákskóla Íslands og Halldór Grétar Einarsson, formaður meistaraflokksráðs Breiðabliks. Þeir ræða Evrópumót taflfélaga sem nú stendur yfir í Ródos í Grikklandi en tugir Íslendinga taka þátt í mótinu. Björn Ívar segir frá skáklífinu í Skákskóla Íslands, Halldór Grétar ræðir tölfræði og ber saman meðalaldur og meðalskákstig keppenda á EM taflfélaga, á Reykjavíkurskákmótinu síðasta og í úrvalsdeild síðasta Íslandsmóts skákfélaga. Í upphafi þáttar er viðtal við Gauta Pál Jónsson, ritstjóra tímaritsins Skákar, sem Kristján Örn tók við hann í morgun en Gauti Páll er einn af 38 Íslendingum sem nú sitja að tafli á EM taflfélaga í Grikklandi. Farið var yfir fréttir um skyndilegt andlát bandaríska stórmeistarans Daniel Naroditsky sem lést síðastliðinn sunnudag en hann var aðeins 29 ára gamall. Hann var á meðal sterkustu skákmanna heims í hraðskák og atskák, vinsæll skákskýrandi og streymari, dáður og vinamargur í skáksamfélaginu út um allan heim.