
Þeir Ingvar Þór Jóhannesson, formaður Taflfélags Reykjavíkur og ritstjóri Skák.is og Kristján Örn halda áfram að segja fréttir af erlendum og innlendum skákvettvangi en Ingvar Þór var einnig gestur þáttarins í síðustu viku. Ingvar og Kristján fóru yfir mótasenuna bæði hér heima og erlendis og var af nógu að taka!
Í upphafi síðari hluta þáttarins hringja þeir í Björn Ívar Karlsson, skólastjóra Skákskóla Íslands en Skákskóli Íslands stendur fyrir skákþjálfaranámskeiði dagana 29. og 30. september. Námskeiðið er opið öllum áhugasömum og er sérstaklega sniðið fyrir þá sem sinna skákþjálfun innan skóla eða skákfélaga eða hafa áhuga á því að reyna fyrir sér í skákþjálfun. Kennarar á námskeiðinu verða Björn Ívar Karlsson FIDE trainer og skólastjóri Skákskóla Íslands og Jóhanna Björg Jóhannsdóttir forseti SÍ og barnasálfræðingur. Námskeiðið fer fram í húsnæði Skákskóla Íslands, Faxafeni 12. Einnig verður námskeiðið sent út í gegnum fjarfundabúnað fyrir þá sem komast ekki á staðinn. Slóð á frétt og nánari upplýsingar um skákþjálfaranámskeiðið.