
Stefán Þormar Guðmundsson, skákmaður og fyrrverandi banka- og veitingamaður er gestur Kristjáns Arnar Elíassonar. Stefán talar um skákmenninguna í íslensku bönkunum hér á árum áður og segir að mikið hafi verið teflt og mörg sterk skákmót hafi verið haldin í bönkunum og á vegum þeirra. Hann segir að mikil samkeppni hafi verið á milli bankanna og þeir keppst við að ná til sín sterkustu skákmönnunum. Stefán telur upp fjölmörg nöfn öflugra skákmanna sem skipuðu sveitir Búnaðarbankans, Landsbankans og Útvegsbankans. Hann talar um Jóhann Þóri Jónsson og Helgarskákmótin og þá sérstaklega mótin í Vík í Mýrdal og í Grímsey. Stefán Þormar rak Litlu kaffistofuna við Suðurlandsveg í aldarfjórðung og kom sér þar upp miklu safni með úrklippum af íþróttasíðum dagblaðanna auk trefla, fána og annarra muna sem tengjast knattspyrnu, handbolta og körfubolta. Stefán segir margar sögur eins og af Draugahlíðsbrekkunni sem er brekkan fyrir ofan Litlu kaffistofuna, forræðishyggju veðurfræðinga sem spá leiðindaveðri og skipti sér af því hvort fólk eigi að vera að ferðinni eða ekki og þegar hettuklætt par vopnað hnífi og hafnarboltakylfu reyndi að ræna Litlu kaffistofuna.