
Gísli Matthías Auðunsson er viðmælandi Matmanna að þessu sinni. Gísli Matt eins og hann er oftast kallaður er matreiðslumaður, athafnamaður og talsmaður íslenskrar matarmenningar. Hann er þekktastur fyrir að hafa stofnað og rekið veitingastaðinn Slippinn í Vestmannaeyjum ásamt fjölskyldu sinni, en staðurinn hefur notið mikilla vinsælda og hlotið alþjóðlega viðurkenningu fyrir nýstárlega matreiðslu sem byggir á hefðum og hráefni úr heimabyggð. Að auki hefur Gísli komið að ýmsum öðrum verkefnum eins og Skál í Hlemmi Mathöll, sá veitingastaður fékk viðurkenningu frá Michelin-leiðarvísinum. Eining rekur Gísli dótturstað Slippsins sem kallast Næs og fleiri veitingastaði í Vestmannaeyjum. Hann hefur líka gefið út bókina SLIPPURINN: Recipes and Stories from Iceland, sem kom út á heimsvísu í yfir 70 löndum. Gísli er þekktur fyrir að nota ferskt, staðbundið og sjálfbært hráefni og hefur vakið athygli fyrir skapandi nálgun sína á íslenska matargerð. Hann hefur einnig tjáð sig opinberlega um áskoranir í veitingarekstri á Íslandi. Matreiðsla varð snemma áhugi hans, hann var mjög ungur þegar hann byrjaði að elda og því lá leið hans í Menntaskólann í Kópavogi. Stór áfangi á ferli hans var opnun veitingarstaðarins Slippinn í Vestmannaeyjum árið 2012, en hann hefur eins og áður sagði, vakið gríðarlega athygli og viðurkenningu á alþjóðavettvangi. Það var í raun þar sem hann festi sig í sessi sem einn af athyglisverðustu matreiðslumönnum landsins.