
Erlendur Eiríksson er fjölhæfur maður og með margþættan feril, en Davíð og Bjartur fengu Erlend til sín í heimsókn í 22. þátt Matmanna, þar sem hann mætti með smakk af einstaklega góðum grænkeraostum. Erlendur er faglærður matreiðslumeistari, flugmaður, leikari og með meistaragráðu í lögfræði svo eitthvað sé upp talið. Hann lærði kokkinn á Lækjarbrekku árin 1992 til 1995, og hefur unnið á fjölda veitingahúsa, bæði sem stjórnandi og matreiðslumaður. Hann hefur einnig komið að leiksýningum, kvikmyndum, sjónvarpi og útvarpi sem leikari. Elli eins og hann er oftast kallaður, stofnaði fyrirtækið Livefood árið 2019 í þeim tilgangi að gera grænkera ostagerð. Fyrstu frumframleiðslu grænkeraostarnir fóru í sölu árið 2023 hér á landi, en Garri hefur verið að halda utan um sölu og dreifingu á þessum vörum og er verið að selja vörurnar í stóreldhús um land allt. Stefnan er sett á erlendan markað líka og ef öll plön ganga eftir mun það eiga sér stað árið 2026. Þessar frábæru vörur eru líka seldar í smásölu í Nándinni í Hafnarfirði, Sólskinsbúðinni á Flúðum, hjá Almari Bakara, Made in Iceland á Selfossi og í Kolaportinu. Elli sem er fæddur 22. febrúar 1970 segir hér á skemmtilegan hátt frá lífi sínu og fyrirtækinu Livefood sem er staðsett í Hveragerði.