
Arthur Pétursson matreiðslumeistari, yfirkokkur á Hard Rock Cafe Reykjavík og skáti í húð og hár er átjándi viðmælandi Matmanna. Arthur eða Túri eins og hann er betur þekktur, var yfirkokkur á stærsta Hard Rock stað í heimi sem staðsettur er í Orlando á Flórída. Sá staður tekur 1.040 manns í sæti og er sölumetið þar hvorki meira né minna en 11.800 máltíðir á einum degi. Áður en haldið var til Bandaríkjanna hafði hann starfað í fimm ár á gamla Hard Rock Cafe í Kringlunni, en Túri hóf störf þar árið 1989 sem var upphafið af skemmtilegum tíma í hans lífi og einnig botnlausri vinnu. Túri hefur ferðast um allan heim til að aðstoða við opnanir á yfir 20 Hard Rock stöðum um víða veröld. Í þessum þætti fáum við að hnýsast aðeins bakvið tjöldin og heyra af ævintýralegum atvikum sem margir hefðu ekkert á móti að upplifa. Sem dæmi er Shaquille O‘Neal algjör prakkari sem fær Túra af og til heim til sín að elda fyrir sig og vini sína, þar á meðal Adam Sandler, þar sem þeir fela áhöldin fyrir Túra svo hann geti ekki eldað og reka á eftir honum í gríni. Hér er bráðskemmtilegur þáttur á ferð sem engin ætti að láta framhjá sér fara.