Viðmælendur okkar í þessum sautjánda þætti Matmanna, eru hjónin Jóna Sigríður Gunnarsdóttir hjúkrunarfræðingur og Guðmundur Magnús Níelsen garðyrkjumaður. Jóna er frá Vopnafirði þar sem hún ólst upp við bakstur í hópi kvennfélagskvenna og nýtir sér reynslu sína þaðan í fyrirtækinu sínu í dag sem ber heitið Rósakaffi og er í Hveragerði. Rósakaffi býður upp á kökuhlaðborð alla sunnudaga milli kl.14-17 en þar eru á borðum ca. 17-20 tegundir af kökum á sanníslensku kökuhlaðborði. Á Rósakaffi er heimilislegt yfirbragð, en þar er á ferð fjölskyldurekið fyrirtæki þar sem hlýlega er tekið á móti manni. Guðmundur, eiginmaður Jónu, er frá Hveragerði og er hann venjulega á hlaupum til að halda öllu fínu í salnum og passa upp á að fylla á kökuhlaðborðið með góðri hjálp frá tveimur börnum þeirra. Á hverjum sunnudegi koma 250+ manns til að gæða sér á góðgætinu hennar Jónu svo það er nóg að gera. Þau hafa verið gift frá því 2006 og tóku við fyrirtækinu árið 2019, sem var áður rósaræktun í garðskálanum. Þau eru með opið alla virka daga í hádeginu, þar sem hægt er að fá heimilismat af hlaðborði og panta sér af grillinu ef svo ber undir. Við mælum með að skella sér í bíltúr og smakka hjá þeim kræsingarnar.