Í fjórða þætti, þriðja tímabils Koma svo! er rætt við Sigríði Arndísi Jóhannsdóttur, verkefnastjóra hjá Þjónustumiðstöð Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíðar hjá Reykjavíkurborg. Einnig er hún varaborgarfulltrúi þar sem hún situr í nokkrum ráðum á vegum borgarinnar. Verkefnin voru mörg, margir boltar voru á lofti og eins og með svo marga þá labbaði Sigríður Arndís á vegg.
Í þriðja þætti, þriðja tímabils Koma svo! er rætt við Ragnheiði Agnarsdóttur. B.A. í sálfræði og M.A. í mannauðsstjórnun. Þegar Ragnheiður var búin að vera 16 ár í atvinnulífinu, upplifa makamissi og fara á hnefanum eins og okkur Íslendingum er svo tamt að gera, fóru hugsanir að gerjast um lífið og tilveruna. Á að fara í gegnum lífið á 100 km. hraða og aldrei að njóta stundarinnar? Ragnheiður fór að skoða á hverju grunnurinn að lífsgæðum okkar byggist og komst að því að þetta er ekki flókið. Við þurfum að hlúa að okkur sjálfum!
Í þessum fyrsta þætti, þriðja tímabils Koma svo! er rætt við Magnús Sigurjón Guðmundsson, betur þekktan sem Maggi Pera. Magnús er tómstunda- og félagsmálafræðingur og hefur unnið lengi með unglingum. Hann söðlaði um í febrúar 2020 þegar hann hóf störf hjá Póstinum á Selfossi en áður af því varð rann Magnús til í hálku og höfuðkúpubrotnaði.
Í þrítugasta og fimmta þætti Koma svo! er rætt við Ragnhildi Þórðardóttur, sálfræðing með áherslu á heilsusálfræði og einnig lærðan einkaþjálfara. Hún er þekkt undir nafninu Ragga nagli, býr í Danmörku og hefur boðið upp á sálfræðimeðferð og fjarþjálfun síðustu ár. Þar er unnið með hugsanir og hugarfar (í bland við þjálfun sé þess óskað) til að auka líkurnar á varanlegum lífsstílsbreytingum. En hvað mótaði naglann?
Í þrítugasta og fjórða þætti Koma svo! er rætt við Jógvan Hansen söngvara / tónlistarmann / hárgreiðslumann / eiginmann / föður. Færeyingurinn hugljúfi er einn ástsælasti söngvari Íslands og skyldi engan undra. En hvaða mann hefur hann að geyma? Eru Færeyingar mikið öðruvísi en við Íslendingar?
Í tuttugasta og áttunda þætti af Koma svo! er rætt við Júlíus Garðar Júlíusson, fæddan 2. febrúar á því herrans ári 1966. Í kínverskri stjörnuspeki kemur fram að þeir sem fæddust á þessu ári eru eldhestar eða sérstaklega orkumikið fólk. Júlli er einstakur orkubolti, andlegur með afbrigðum og lúnkinn í vefsíðugerð. Hver kannast ekki við jólavef Júlla eða kærleiksvef Júlla? Rekur Þulu veisluþjónustu ásamt eiginkonu sinni og er framkvæmdastjóri Fiskidagsins mikla.