
Edith Alvarsdóttir ræðir við sr. Geir Waage, formann Málfundafélagsins Frelsis og fullveldis í þessum hlaðvarpsþætti. Aðspurður um hvers vegna farið hafi verið af stað með það að stofna málfundafélagið segir Geir:
"Það eru ýmsar forsendur fyrir því. Auðvitað þreyta þeirra sem hafa verið að taka þátt í pólitísku starfi á undanförnum áratugum. Það er hvergi pláss eða friður til þess að standa að neinni pólitískri samstæðu eða pólitískri umræðu innan stjórnmálaflokkanna. Stjórnmálaflokkarnir hafa breyst mjög mikið og stjórnmálaumræða hefur breyst mjög mikið tel ég frá því er ég man fyrst eftir henni sem krakki og ég hef fylgst með stjórnmálum frá því ég var nánast barn.
Það eru engin grið gefin með það á opinberum vettvangi að menn geti borið saman bækur sínar um pólitík eða yfir höfuð rætt um stjórnmál hvað þá heldur grundvallarhluti eins og frelsi og fullveldi þjóðar að okkur fannst. Ég var ekki einn um þessa skoðun og þeir sem standa að stofnun félagsins eru eiginlega allir á þessu máli. Við vildum hafa vettvang þar sem við getum rætt um stjórnmál og einkum og sér í lagi frelsi og fullveldi þjóðarinnar sem við teljum sótt að um þessar mundir, mjög."
Og Geir heldur áfram: "Málfundafélag er gamalreyndur vettvangur fyrir skoðanaskipti. Og einhverjum datt í hug að segja: "Hvers vegna ekki bara að stofna málfundafélag til þess að ræða þetta þá í hóp þeirra manna sem hafa áhuga á að standa að slíku félagi." Þetta held ég að sé eiginlega upphafið."
Í viðtalinu veltir Geir fyrir sér umboði stjórnmálastéttarinnar og spyr: "Í hvers umboði starfa stjórnmálamenn?"
"Mikið skelfing er ég feginn," segir Geir og vísar þá til þess að í 26. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, lögum nr. 33/1944, sé að finna heimild forseta Íslands til að synja lagafrumvarpi staðfestingar [Innskot úr stjórnarskrá: en leggja skal það þá svo fljótt sem kostur er undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar með leynilegri atkvæðagreiðslu. Lögin falla úr gildi, ef samþykkis er synjað, en ella halda þau gildi sínu.].
"Þetta er það eina sem þjóðin hefur sér til varnar ef að stjórnmálastéttin í landinu sameinast um það að taka rangar ákvarðanir sem ganga algjörlega gegn vilja meginþorra landsmanna. Og það er þessi meginþorri landsmanna sem á að hafa síðast orðið. Þjóðin er fullvalda, ekki stjórnmálastéttin," segir sr. Geir Waage.